Vitleysa.is | Íslenskir grínistar slógu í gegn í Edinborg

Íslenskir grínistar slógu í gegn í Edinborg

August 30, 2017
                                                                                         Helgi Steinar og Ari Eldjárn í Edinborg

Stærsta listahátíð heims var nú við það að ljúka í Edinborg og fram að mánudegi hafði hún staðið yfir allan ágústmánuðinn. Einu sinni á hverju ári lifnar þessi skoska höfuðborg við þar sem tugþúsundir uppistandarar, tónlistarmenn og leikarar mæta til að skemmta á rúmum 4000 sýningum á yfir 300 mismunandi stöðum víðs vegar um borgina. Hátiðin, sem ber nafnið Edinburgh Fringe Festival byrjaði árið 1947 sem svar við annarri alþjóðlegri listahátið í Edinborg og átti þessi hátíð þar með 70 ára afmæli núna í ár. Skemmtikraftar um heim allan koma til að troða upp á þessum „Ólympíuleikum listamanna“ og á þessu ári létu Íslendingar sig ekki vanta.

Uppistandarinn Ari Eldjárn mætti strax með látum og fékk sýningin hans Pardon my Icelandic fljótlega fjórar stjörnur frá dagblaðinu Scotsman. Gagnrýnandi Chortle blaðsins, Steve Bennett, gaf honum einnig háa einkunn fyrir frábæran flutning á sýningu hans, sem var meira og minna uppseld hvern einasta dag. Ari var duglegur að fræða áhorfendur um skemmtileg málefni eins og samband Íslendinga við Dani, reynslu hans við að búa í Bretlandi og hvernig það er að ala upp börn sem grínisti. Ari Eldjárn flutti 21 sýningu á 25 dögum og er öruggt að segja að hann hafi stimplað sig inn í breska uppistandsheiminn eftir þessa frammistöðu.

Grínistinn Helgi Steinar Gunnlaugsson var einnig viðstaddur á hátíðinni með klukkutíma uppistandssýningu sína Stateless og af þeim 9 sýningum sem hann flutti voru 8 uppseldar. Hann kom fram á 5 mismunandi stöðum og fékk einnig frábærar viðtökur frá áhorfendum. Þórhallur Þórhallsson hitaði upp fyrir þær sýningar og var einstaklega tekið vel í þetta íslenska teymi.

Það verður að öllum líkindum nóg að gera hjá þeim Helga og Ara í vetur, þar sem uppistandssenan á Íslandi er að stækka af fullum krafti. Í hverri viku býður Gaukurinn á Tryggvagötu upp á uppistandssýningar á mánudagskvöldum klukkan 21:00 þar sem íslenskir grínistar eins og Helgi mæta og prufa nýtt efni á ensku fyrir framan Íslendinga sem og ferðamenn. Mið-Ísland verður einnig í fullum gangi eftir jól og hægt er að segja að með svona auknum áhuga á uppistandi hérlendis, verður ekki langt í að Ísland fari að halda sína eigin uppistandshátíð.

                                                                                           Íslensk grínistasamkoma í Edinborg
                             Fr. Vinstri: Jóhannes Ingi, Helgi Steinar, Ari Eldjárn, Bergur Ebbi, Andri Ívars og Þórhallur Þórhallsson
Deilið eins og vitleysingar!

No Responses